Afi

............Tryggvi Sigtryggsson afi minn fæddist á þessum degi árið 1894. Ólst upp á Hallbjarnarstöðum í Reykjadal í Suður Þingeyarsýslu.  Eftir að hann giftist ömmu  minni Unni bjuggu þau fyrst í Heiðarbót í Reykjahverfi en byggðu síðan nýbýlið Laugaból í Reykjadal.  Þar ólu þau upp sín 11 börn. 8 drengir og  3 stúlkur. Þætti nú sumum nóg um í dag.  Barnabörnin eru 39 og urmull af barnabarnabörnum og barnabarnabarnabörnum.  

Skógrækt og garðrækt voru hans helstu áhugamál. Margar sjaldgæfar plöntur átti hann í garðinum sínum sem var eitt blómahaf. Hann mun hafa flutt inn einhverjar plöntur sjálfur þar á meðal held ég hinn gullfallega alpaþyrni sem þrífst vel á norðurlandi en illa eða ekki hjá mér. Hann ræktaði einnig mikið af  matjurtum . Í garðinum var steypt vatnsþró svo hægt væri að vökva.  Vatnið var volgt enda heitar laugar á jörðinni.  Þetta var óspart notað af okkur barnabörnunum eins og heitir pottar eru í dag.  Við höfðum þá reyndar ekkert heyrt um heita potta nema þá sem voru á eldavélunum.

Mín fyrstu ár bjó ég hjá ömmu og afa.  Þá kallaði ég hann Tryggrigg.  Og æfinlega þótti mér gott að vera hjá þeim. Afi spilaði á fiðlu eins og margir Reydælingar gerðu. Það mun hafa verið óvenju hátt hlutfall af  fiðluleikurum í þessari sveit.  Afi hafði nógan tíma til að spjalla við litla stelpu.  Ég sé afa fyrir mér leggja kapal við borðstofuborðið með slitnum spilum...eins og ég geri í dag...sama kapalinn.

Ég var að skottast á eftir afa þegar einhver skelfilegasti atburður í minni frumbernsku varð. Hyrnd belja reif mig upp á hornunum og fleygði mér til.  Lengi á eftir var ég smeyk við þessar tröllvöxnu skepnur.

Ég held ég fari rétt með að sá gamli hafi verið ritari á ráðstefnu níræður. Á þeim aldri var hann enn að gróðursetja. Hann lést 92ja ára gamall en skógurinn fyrir ofan Laugaból verður lengi minnisvarði um góðan mann.

Þá er ég búin að skrifa um báða afa mína og  báðar ömmur.

Geymi góðar minningar um þau öll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.11.2008 kl. 01:05

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góðar minningar eru sálarbætandi

Sigrún Jónsdóttir, 20.11.2008 kl. 01:16

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég lenti líka í því þegar ég var barn, svona um sex ára aldur, að belja stangaði mig í magan. Hún var sem betur fer ekki með horn.

Ég man ennþá eftir undrun minni því ég hélt satt að segja að beljur væru góðar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.11.2008 kl. 02:03

4 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Skemmtilegt hvernig þú berð hefðina áfram með kapalinn á ég við.

En áhygavert þetta með hlutfall fiðluleikara á svæðinu - kanntu skýringu á því?

Soffía Valdimarsdóttir, 20.11.2008 kl. 10:08

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk öll fyrir innlit.  Já þær geta verið ógnandi kýrmnar Jakobína Ingunn.

Vala  það var einhvern tímann gerður útvarpsþáttur um fiðluspilara í Reykjadal..ég held að afar okka beggja hafi verið í honum. Viss um að Húnbogi veit þetta!

Soffía...sennilega hefur hver tekið þetta upp eftir öðrum

Hólmdís Hjartardóttir, 20.11.2008 kl. 10:17

6 identicon

Stundum læri ég heilmikið um sjálfan mig þegar ég lít hérna við, ég sé jafnramt að afi þinn og afi minn eiga margt sameiginlegt.

Ég þakka kærlega...

Daníel (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 14:13

7 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

já Danni mikið rétt

Hólmdís Hjartardóttir, 20.11.2008 kl. 17:42

8 identicon

Það er svo gaman að lesa þetta, var að lesa um Gunnfríði um daginn. Ég kom nokkrum sinnum til hennar í kaffi í Kringlumýrina og svo á Hlíð. Man líka eftir fiðlu á Öndólfsstöðum þó ég muni ekki eftir afa spila á hana, en oft horfði ég á Sigga frænda þegar hann spilaði á orgelið :) Svona minningar eru dýrmætar.

Guðrún Torfadóttir (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 15:17

9 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Blessuð Gunna mín.  Er búin að skrifa um þau öll. Já minningarnar eru dýrmætar. Kannast þú eitthvað við þennan Daníel hér fyrir ofan?

Fiðlur voru til á flestum bæjum í Reykjadal held ég.  Kveðja

Hólmdís Hjartardóttir, 21.11.2008 kl. 15:32

10 identicon

Ég var líka sem barn í Reykjadalnum. Þegar fók kom í heimsókn var það venja að stilla sér upp við orgelið í stofunni og leika á hljóðfæri og syngja. Það gat enginn skorast undan. Síðan var gjarnan rökrætt um rödd og tónlistarhæfileika hvers og eins. Farið var tvisvar í viku að draga fyrir í Vestmannsvatni og vel séð að börn og fullorðnir færu í ána með stöng. Síðan þá hef ég haft gaman af silungs og laxveiði. Ég man eftir þessum útvarpsþætti. Þar léku afi minn, Jónas og Tryggvi á Laugabóli á fiðlu. Ég hugsa stundum til þess hvað væri gaman ef þessir menn væru á lífi í dag og fengju að prófa Stradivarius fiðluna hjá, reykdælingnum, Hjörleifi.

Hjörleifur varðveitir fiðluna hans afa og notar hana stundum.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 12:45

11 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir þetta Húnbogi.  Þeim hefði ekki leiðst gömlu mönnunum að handleika Stradivarius.  Bróðir þinn er að mínu mati langskemmtilegasti fiðluleikari landsins og er vel að því kominn að hafa þessa eðalfiðlu. Merkilegt hve margir léku á hljóðfæri í dalnum góða.

Frá Laugabóli var farið í Másvatn og Reyjadalsá sem var síðan leigð. Hreinn bróðir minn veiddi þar lax í stígvélið sitt því hann mátti ekki vera með stöng.

Hólmdís Hjartardóttir, 22.11.2008 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband