11.6.2008 | 01:52
Afi.
.....Upp er runninn afmælisdagur afa míns Helga Dan. Hann fæddist árið 1900. Sveitadrengur í Öngulstaðahreppi. Bóndi á Björk. Mikill bókamaður og hans stærsta stolt var Guðbrandsbiblía. Aðaláhugamál var ættfræði og íslenskt mál. Hann giftist ömmu minni Gunnfríði og átti með henni Örn og Auði. Við áttum alltaf skap saman. Þegar talað er um skilyrðislausa ást hugsa ég alltaf um afa. Mér fannst hann bara það besta sem hægt er að hugsa sér. Mér fannst hann óborganlega fyndinn. Hans húmor varð minn húmor. Hann var rausnarlegur við okkur afkomendur, hlýr og fræðandi. Mér leið alltaf vel nálægt honum. Oft var ég hjá ömmu og afa í sveitinni. Og á menntaskólaárum mínum á Akureyri bjó ég hjá þeim. Mér fannst allt skemmtilegt og fyndið sem afi sagði. Og ég elskaði þegar hann hreinlega hristist af hlátri og húmor. Þegar ég kom heim til foreldra minna um helgar var ég uppfull af skemmtisögum um afa. Þegar bróðir minn bjó hjá honum seinna kom hann heim og spurði "var afi alltaf svona skrýtinn"?. Afa húmor var oft fólginn í því að segja sama brandarann oft og mér fannst þeir alltaf fara batnandi. Ég á teikningu eftir hann frá því í barnaskóla og stól sem hann sagðist hafa fengið fjögurra ára gamall.
Á Akureyri horfðum við afi á allt íslenskt efni saman. Afi var blindur. Og hann hraut ákaflega fyrir framan sjónvarpið. Að loknum íslenskum myndum og leikritum sagði hann alltaf: óskaplega er þetta nútímaefni lélegt. Og alltaf þótti mér það jafnóborganlegt. Svo enda ég með einni af uppáhaldsvísum afa sem hann fór með flesta daga.
Rösklega riðið í hlað
rétt um sólarlagsbil.
Það er nú einmitt það
og það er nú líkast til.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:08 | Facebook
Athugasemdir
Yndislegur afi sem þú hefur átt
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.6.2008 kl. 02:01
Akureyri hmmmm, kannski maður kannist við þig..
Sagan á bakvið þessa vísu er líka skemmtileg.
Haraldur Davíðsson, 11.6.2008 kl. 02:42
Frábær hann afi tinn.Ómetanlegt ad hafa fengid ad kinnast öfum og ömmum sínum svona vel.Létt og skemmtileg vísan háns.
Knús á tig inn í daginn.
Gudrún Hauksdótttir, 11.6.2008 kl. 05:17
Ég vona að ég gefi tilefni til svona skemmtilegra og fallegra ummæla. Græt það að hafa aldrei átt afa eða ömmu (foreldrar mínir fæddir um 1900) svo heit mitt var að verða sá ái sem ég aldrei átti, - þ.e. frábær. Ætla að láta mér takast það.
Beturvitringur, 11.6.2008 kl. 07:25
Alltaf svo gott að geta yljað sér við góðar minningar.
Knús á þig sæta.
Tína, 11.6.2008 kl. 08:48
Mikið er þetta skemmtileg lýsing - og þú heppin að eiga svona góðar minningar um afa þinn!
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.6.2008 kl. 11:36
Frábær endurminning um góðan afa, til hamingju með hann
Sigrún Jónsdóttir, 11.6.2008 kl. 12:39
Takk öll fyrir innlit....minningin um afa verður aldrei tekin frá mér
Hólmdís Hjartardóttir, 11.6.2008 kl. 12:58
Hólmdís, þér til heiðurs kaflamerkti ég færsluna, ha ha ha
Beturvitringur, 11.6.2008 kl. 15:19
Beturvitringur ég er upp með mér
Hólmdís Hjartardóttir, 11.6.2008 kl. 19:50
Já... ég get með sönnu sagt að ég fræddist heilmikið um hann lang-afa minn við það að lesa þetta yfir.
Danni (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 00:57
Danni minn þú áttir góðan langafa Nú kem ég norður á föstudaginn og mála bæinn rauðann......sjáumst í höllinni?
Hólmdís Hjartardóttir, 12.6.2008 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.