24.7.2008 | 20:49
Hvunndagshetjur.
....ég sé þær margar í gegn um starf mitt. Foreldrar fatlaðra barna. Foreldrar langveikra barna. Aðstandendur geðsjúkra. Og síðast en ekki síst aðstandendur og makar fullorðinna með langvinna sjúklinga. Og oft ófullnægjandi hjálp að fá.
Ég reyni oft að setja mig í þeirra spor. Fólk er að vakna oft á nóttu til að snúa fólkinu sínu í rúminu, skipta á bleium, þvo þvagblaut föt, mata, klæða, baða og hátta. Gefa lyf. Þetta er ekki létt verk ef viðkomandi er kannske 100 kg og lamaður. Það er heldur ekkert létt verk að gæta heilabilaðs einstaklings daginn út og daginn inn. Sem gleymir að slökkva á eldavélinni, ratar ekki heim eða pissar í drykkjarílátin. Fjölmargir Íslendingar lifa við þennan raunveruleika. Að sinna ósjálfbjarga ættingjum sínum allan sólarhringinn. Og margir nánast örmagna. Biðlistar eru langir eftir plássum á öldrunarstofnunum.
þetta fólk á rétt á heimahjúkrun og heimaþjónustu. Fólk er gjarnan tekið fram úr á morgnanna og sett í rúm á kvöldin og baðað einu sinni í viku. Aðstæður heima eru oft mjög erfiðar. Of þröngt fyrir hjálpartæki eins og lyftara og hjólastóla. Þessi aðstoð er vissulega góð en hún er svo langt frá því að vera nægileg fyrir allt of marga. Ef heppnin er með er hægt að koma ástvininum í hvíldarinnlögn fáeinar vikur á ári.
Persónulega er ég meðmælt því að fólk sé eins lengi heima og mögulegt er.....og fái þá góða hjálp heim. En það má ekki gleyma að huga að mökum og öðrum aðstandendum. Makarnir gjarnan orðnir gamlir sjálfir og ekki í stakk búnir að hugsa um þunga hjúkrunarsjúklinga. En þeim sem vilja hugsa um fólkið sitt heima er nauðsynlegt að veita hvíld. Það þarf að fjölga hvíldarinnlagarplássum verulega. Og það bráðvantar fleiri vistunarúrræði. Fá vistunarúrræði eru til fyrir yngri einstaklinga með erfiða sjúkdóma. Þrautalendingin er stundum öldrunarheimili......sem mér þykir einkar sorglegt.
En hvað um það fólkið sem sinnir sínum veiku aðstandendum árið um kring eru sannarlega hvunndagshetjur. Og það sparar samfélaginu dágóðan skildinginn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.7.2008 kl. 02:24 | Facebook
Athugasemdir
Sammála, sammála, sammála. Meira af þessu Hólmdís
Sigrún Jónsdóttir, 24.7.2008 kl. 20:53
Sæl Hólmdís.
Flestir Íslendingar hugsa ekkert út í þetta fyrr en þeir allt í einu lenda í þeim aðstæðum sjálfir sem þú lýsir svo vel í pistli þínum.( Ég hef sjálfur hugsað um Alzheimer sjúkling í 2 ár og veit hvað það er ).
Því miður er Ríkið alls ekki að standa sig í þessu,og er allveg sama hvað þeir eru alltaf að koma fram í sjónvarpi, þessir Ráðherrar. Orð þeirra endast út þáttinn og svo er það búið.,og það þarf virkilega að kenna þssu stjórnarherrum hvað LOFORÐ ÞÝÐIR.
Gangi þér vel í skrifum þínum.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 21:26
Hólmdís, ég veit að þú veist, að við erum sama sinnis..... við vinnum báðar í "geiranum" og sjáum hvað betur má fara. Í Danmörku lærði ég, bjó og starfaði, þar af svolítið í heimahjúkrunargeiranum, og sá geiri er svo margfalt betri heldur en okkar á Íslandi. Þar er sjálfsagt að fólk fái aðstoð við innkaup, þvott af fötum og rúmfötum og öðru slíku, sem ekki finnst í íslenskri þjónustu. Þar miðast allt að því, að fólk geti verið eins lengi heima og mögulegt, og ekki fyrr en fólk þurfi á mikilli hjúkrun og læknisaðstoð að halda, þá er farið að huga að öldrunarstofnun.... eða spítala. Ég fór í tvö ár, næstum daglega, til sama mannsins, bara til að færa hann úr stofunni og inní eldhús til að borða hádegismat, svo hjálpaði ég honum á klósettið og tók úr þvottavélinni á meðan, færði hann svo aftur inn í stofu og kveikti á útvarpinu. Þetta var það eina sem hann þurfti á þessum tíma dags, en nóg til þess, að ef þessi þjónusta hefði ekki verið til staðar þá hefði hann verið á öldrunarstofnun. Og þetta þurfa ekki að vera dýrir starfskraftar sem gera þetta, en þeir þurfa auðvitað að fá laun engu að síður..... svo kannski, ef við myndum borga félagsliðum fyrir allskonar svona störf, þá gæti fólk verið heima hjá sér lengur..... Og ég veit að það getur það, en stjórnvöld okkar leggja ekki áherslu á þennan flokk málefna.....
Lilja G. Bolladóttir, 24.7.2008 kl. 21:50
Takk fyrir innlit. Já það þarf virkilega að efla heimaþjónustu Lilja.
Hólmdís Hjartardóttir, 25.7.2008 kl. 01:00
Þetta er alveg rétt hjá þér. Og hvað svo með alla þá, sem eiga ekki fjölskyldu til að hjálpa sér. Þeir eru algjörlega á vonarvöl.
Ég vinn með heilaskaðað fatlað fólk hér í Danmörku, og það er títt að ég hugsa til þess hvað það er mikill munur á mannréttindum þessara hópa hér eða á Íslandi. Það er íslensku þjóðinni til skammar hvernig búið er að fötluðum, geðveikum og gömlu fólki, og vilja íslendingar þó telja sig til velmegandi þjóða.
Sigríður Hulda Richardsdóttir, 25.7.2008 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.