Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.5.2008 | 02:18
Árangurstengd laun.
....Bankamenn hafa lengi haft árangurstengd "ofurlaun". Og fleiri . Nú vilja lögreglumenn fá árangurstengd laun ( ég heyrði það nú fyrst eftir gösunina við Rauðavatn). Þeir eru greinilega svo stoltir af þeim mikla árangri sem þeir náðu þar. Sennilega fá þeir sem hugsa um aldraða aldrei árangurstengd laun...það enda allir á einn veg og þykir ekki merkilegur árangur þegar þannig fer. En ég vildi gjarnan sjá laun borgarfulltrúa, alþingismanna og ráðherra árangurstengd. Af því yrði stórkostlegur sparnaður.
Mér varð illt að heyra um laun borgarfulltrúa. Fyrir okkur venjulegt launafólk virðast þetta há laun. Finnst að krafti borgarfulltrúa hafi ekki verið beint í réttan farveg. Margir þeirra hefðu verið reknir af "venjulegum" vinnustað. og ekki leið mér betur að heyra um launamun kynjanna á RUV. Annars fór ég um árið í starfsmat hjá Reykjavíkurborg. Þessu var komið á laggirnar til að jafna launamun kynjanna. Við fórum nokkrir hjúkrunarfræðingar í þetta mat. Niðurstaða fékkst. Mér skilst að það hefði þurft að hækka laun okkar um 500 þús ef ætti að fara eftir matinu. Launin okkar breyttust ekki. Starfsmatið ekki sagt passa við okkur!!!
Þótt ég hafi kosið Ingibjörgu Sólrúnu og þyki mikið til hennar koma að mörgu leyti er ég ánægð með að stöð 2 þjarmi að henni vegna eftirlaunalaganna. Sem eru mesti dónaskapur sem Alþingi hefur sýnt þjóðinni.
..Vonandi vakna ég léttlyndari í fyrramálið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.5.2008 | 13:39
Prik
30.4.2008 | 14:33
Kvartað yfir fjarveru heilbrigðisáðherra.
30.4.2008 | 10:25
Mannekla á Landspítala.
Nú hefur tekist að hrekja um 140 starfsmenn frá Landspítala. Var nú manneklan nóg fyrir. Á tyllidögum er rætt um mannauð spítalans. Hverju hefur svokölluð gæðastjórnun og mannauðsstjórnun skilað? Engin tilraun hefur verið gerð til að ræða lausnir við þetta sérhæfða starfsfólk sem nú gengur út á miðnætti. Samningar almennra hjúkrunarfræðinga eru lausir á miðnætti. Kjaraviðræður eru þegar komnar í hnút.
púkinn á öxlini á mér segir mér að uppsagnarfrestur þessa starfsfólks verði framlengdur. Kannski ekki í dag. En neyðarástand skapast fljótt. Ekki styttast biðlistar þeirra sem bíða eftir aðgerðum við þetta.
Það er vel skiljanlegt að þetta starfsfólk láti uppsagnirnar standa. Framkoma stjórnar spítalans við þetta fólk hefur einkennst af hroka. Heilbrigðisráðherra verður að höggva á þennan hnút.
29.4.2008 | 04:35
Undiralda.
1.maí og uppstigningardagur er n.k. fimmtudag. Mér segir svo hugur að 1. maí gangan verði fjölmenn í ár. Ég man aldrei eftir svona miklum óróa í fólki. Ég er of ung til að muna þegar fólk var að flýja til Ástralíu og Svíþjóðar hér á árum áður. Stórum hópum fólks hefur lengi verið haldið á of lágum launum. Öryrkjar, aldraðir og sérstaklega kvennastéttir hafa lengi mátt lepja dauðan úr skel.
Fólk er farið að tala um í alvöru að flytja til útlanda. Það er næsta vonlítið fyrir ungt fólk að leigja eða kaupa sér húsnæði. Allt hefur hækkað, matvöru og bensínverð í hæstu hæðum. Góðærið sem aldrei náði til allra er horfið. Virðing fyrir sjálftökuliðinu við Austurvöll er engin. Þar á bæ eru allir of uppteknir til að leiðrétta eftirlaunalögin (sem er vel að merkja einn mesti dónaskapur sem Alþingi hefur sýnt þjóðinni). Þar á bæ eru menn of uppteknir vegna framboðs til öryggisráðs til að taka eftir örvæntingunni sem margir eru illa haldnir af. Fólk er að verða svartsýnt og vonlaust. Kannski verður 1.maí upprisudagur? Það er komin tími til að kjörnir fulltrúar vinni fyrir fólkið í landinu eða segi af sér ella. Það er allt kraumandi undir niðri.
Aðstæður aldraðra og öryrkja eru til mikillar skammar fyrir ríka þjóð. Heilbrigðisstofnanir, leikskólar og skólar eru undirmannaðir vegna lágra launa.
Miðað við efnahagsástand undanfarinna ára er til skammar að staðan sé eins svört og hún er nú.
Geir Haarde vonast til að ástandið lagist....en gerir ekkert til þess.
Flokkurinn minn Samfylkingin þegir þunnu hljóði.
Framsóknarflokkurinn sem er samsekur ástandinu gagnrýnir þessa ríkisstjórn.
Það virðist bara þurfa byltingu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.4.2008 | 13:14
Landspítali auglýsir eftir geislafræðingum frá Noregi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
26.4.2008 | 15:42
Andlátstilkynning
Mér þykir leitt að þurfa að tilkynna það en Florence Nightingale er látin. Ég hef starfað sem hjúkrunarfræðingur í 26 ár. Allan þann tíma hefur verið mannekla....sem fer versnandi. Allan þann tíma hafa launin verið lág...og fáránlega lág miðað við álag og ábyrgð. Sú var tíð að ég þurfti að kalla út lækni ef ég þurfti á salerni....því enginn var annar til að leysa mig af.
Í 20 ár hæddist fyrrverandi eiginmaður minn af laununum mínum. Vinnutíminn er ekki fjölskylduvænn. Margir hjfr. lenda í árekstrum við maka vegna vinnutíma. Okkar vinnuskylda breytist ekkert þegar eru jól eða páskar. Alla daga er hringt og þú beðinn að vinna meira. Alla þá daga sem þú neitar vinnu siturðu uppi með samviskubit því neitunin bitnar á vinnufélögum eða sjúklingum.
Ég persónulega vinn flestar helgar og rauða daga til að hífa launin mín upp. Öðruvísi gæti ég ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar (lítil íbúð, enginn bíll).
Í hvert skipti sem hjúkrunarfræðingar standa í kjarabaráttu eru þær gagnrýndar fyrir svik við skjólstæðinga...eru hjartalausir eiginhagsmunaseggir. Við bara getum ekki lifað af góðmennskunni.
Í hvert skipti sem hjúkrunarfræðingar standa í kjarabaráttu er þjóðarskútan að sökkva.
Er eðlilegt að álagið sé stöðugt svo mikið að fólk er algerlega búið á því þegar heim er komið? Margir hjúkrunarfr. eru með þokkaleg laun eftir 200% vinnu. Finnst fólki bara í lagi að konur séu í sjálfboðavinnu árið um kring? Stöndum með skurðstofuhjúkrunarfræðingum og geislafræðingum
25.4.2008 | 13:26
Leggjast skurðaðgerðir af á Íslandi??
24.4.2008 | 02:09
Gleðilegt sumar.
....Þá er úti vetrarþraut þegar spóinn vellir graut. Nokkuð ljóst er að sumar og vetur frýs ekki saman svo ekki er að vænta hlýs sumars Alltaf býður maður jafn óþreyjufullur eftir sumrinu. Ég vandist því að fá sumargjafir sem barn og dætrum mínum gef ég smápakka í tilefni dagsins. Móðir mín heldur því fram að hún eigi afmæli á Sumardaginn fyrsta....hver sem dagsetningin er. Jú hún fæddist á Sumardaginn fyrsta.
.....Ég held að óeirðirnar í dag eigi eftir að endurtaka sig. Jafnvel strax á morgun. Lögreglan hefur greinilega fengið skipun um að sýna hörku og grípa til þeirra vopna sem hún hefur. Almenningur er orðinn reiður. Undir niðri er allt kraumandi. Fólk er búið að fá nóg af vaxtaokrinu, skattpíningunni. Spillingunni. Hroka stjórnmálamanna. Háu matvælaverði. Sinnuleysi í samgöngumálum. Sinnuleysi í málefnum aldraðra. Sinnuleysi í málefnum geðsjúkra. Lágum launum.
En ofbeldi á aldrei rétt á sér. Og því miður gengu margir of langt í dag. Lögreglan líka.
Ég gekk Laugaveginn í dag, drukknir unglingar að dimmittera. Ég heyrði setningar eins og " heyrðu komum og berjum lögguna, það ætla allir koma"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.4.2008 | 12:34