Færsluflokkur: Lífstíll

Vorið er komið og grundirnar gróa.

  það er bara skemmtilegt að það skyldi gerast í dag á Sumardaginn fyrsta að gróðurinn tæki slíkan kipp sem hann gerði. Eftir skýfall dagsins skipti garðurinn minn um lit. Ég sá grasið grænka. Fjölæru plönturnar tóku kipp og laukarnir þutu upp. Sumir runnar eru að verða laufgaðir. Reyndar sá ég fyrstu fíflana í blóma í gær...þeir gleðja mig á þessum tíma. Snæstjörnur, ljósbláar perluliljur, hvítur lykill. þetta gleður augað í garðinum mínum í dag. Í næstu görðum eru páskaliljur í blóma en hjá mér eiga þær talsvert í land. Veit ekki afhverju. Ég er komin með fiðring í puttana. Jafnframt komin með kvíða fyrir stjórnleysi þegar kemur að því að kaupa plöntur í vor. Ætli þær hækki ekki upp úr öllu valdi eins og annað.  Er búin að kanna það, það er ekki hægt að fá neina styrki þrátt fyrir sjúklegt stjórnleysi í gróðrarstöðvumWoundering 

...


Enginn greindist með sárasótt.

En margir eru með einkenni lokastigs sjúkdómsins s.s. mikilmennskubrjálæði.

Það sýnist mér.


Sibba

Ég bloggaði einu sinni um Sibbu bekkjarsystur mína sem lærði til forseta. Lærði svona nokkurn veginn það sama og Vigdís forseti. Og svo varð hún fimmtug í janúar....sem enginn getur séð né skilið sem sér hana. Hún lítur út eins og falleg fermingarstelpa.

...Í gær hljóp hún maraþon í London. Og varð númer 2 í sínum aldursflokki. Til hamingju Sigurbjörg Eðvarðsdóttir ofurkona.


To be or not to be

Það er málið......Eftir 16 tíma vinnudag er svarið ;not to be;. Byrjaði á öldrunardeild í morgun, endaði á barnadeild í kvöld.  Yngstu brosin í kvöld lyftu mér þó upp. En núna...gone with the wind....upp í rúm.  Fæ vonandi orku til að rífa kjaft seinna.

 

 

 


Blái grísinn minn.

 Ég á bláan plastgrís sem er nú farinn að láta á sjá.  Þær gáfu mér hann góðu konurnar í Glitni fyrir nokkrum árum. Þeim þótti nefnilega svo leiðinlegt að tæma Ikea-perlubaukinn minn í myntvélina. En reglulega næri ég grísinn minn á því gulli sem mér áskotnast. Tvisvar á ári er hann fullur. Og ég fæ yfir 100þús á ári úr honum sem hefur nýst sem gjaldeyrir fram að þessu. En mig munar lítið að fæða hann en munar mikið um rúmlega 100þús á ári í gjaldeyri. Þetta er svakalega auðveld leið til sparnaðar.

    Húsavíkursaumaklúbburinn stefnir til útlanda einhvern tímann í haust. Á ferðareikning  legg ég 2000kr á mán. Og mun því eiga fyrir ferðinni í haust. Við höfum tvisvar farið saman áður. 1989 til Amsterdam, ég þá á sjöunda mán. meðgöngu. Í þeirri ferð bar það helst til tíðinda að miklar óeirðir urðu í götunni þar sem hótelið stendur. En verið var að reka út hústökufólk. Kveikt var í bílum og hótelið fylltist af sóti. Fréttir af atburðum voru lesnar í ríkissjónvarpinu á Íslandi. Ættingjarnir sannfærðir um að við værum langt frá.

 Næst fórum við til Baltimore. Fyrir utan hótelið okkar þar var maður handtekinn og nokkrum skotum hleypt af byssum.  En við norðanpíur pöntuðum okkur hvíta limmósínu og ókum sem leið lá til Washinton. Íslendingar á hótelinu okkar héldu að forsetinn væri á ferð svo flottur var bíllinnSmile Í Washington vorum við svo ljónheppnar að geta fylgst með Arnold Shwarzenegger leika í kvikmynd.

Báðar ferðirnar okkar hafa verið fullar af óvæntum ævintýrum.....hvað ætli gerist í haust? 


Aldur

kannske er aldurinn að færast yfir????  ég þoli vinnuna mína miklu verr en áður.Ég hef unnið 17 ár á barnadeildum. 7 ár á öldrunardeildum. Í dag er það að verða mér ofviða að hjúkra deyjandi  börnum.  Ég hef oft hugsað út í það að á Landspítala sé eg bara ungar hjúkkur. Gefumst við allar upp?  Þarf ekki að fjölga hjúkrunarfræðingum og minnka álagið???   Margar okkar eru búnar aö fá nóg.

Föstudagurinn langi.

Óskaplega þótti mér þetta langur og leiðinlegur dagur í gamla daga. Mín vegna  mætti hann  nú vera miklu lengri en aðrir dagar.....gæti þegið aukatíma.  10-11  verður opið allan sólarhringinn alla hátíðisdagana. Eins og alla aðra daga. Þó mér sé sama um allan heilagleikann, finnst mér þetta óþarft. Fer bara út í verðlagið sem er nú nógu hátt fyrir. Og svo gæti starfsfólkið kannske þegið frí. Hvað ætli langur opnunartími verslana hækki matarverð mikið? Fróðlegt væri að sjá tölur um það. Ég reyni að sniðganga matvöruverslanir á svona dögum. En mikið óskaplaega fer tíminn hratt um þessar mundir 

Er búin að bíða eftir þessu....

Stjörnuspá vogar. Mun velgengni í fjármálum spilla þér? Bráðum kemstu að því, peningar eru á leiðinni til þín. Og þú þarft að velja hvernig þeim skal varið og valdið sem þeim fylgir.  Gott að fá þetta í niðursveiflunniCool

Fallegt hús

Nú er ég farin að vinna á Heilsuverndarstöðinni. Húsið er eitt það fallegasta í borginni. Það er verið að taka allt í gegn að innan án þess að skemma stílinn. Öllum virðist líða vel þarna inni. Ég bjó lengi í nágrenninu og fannst alltaf æfintýrablær yfir þessu húsi. Mig rámar í að hafa sótt einhverja tíma þarna en kannske er það misminni. Þarna fékk ég einhverjar bólusetningar hjá borgarlækni. Þarna fór ég í mæðraskoðun. Í dag kom inn á deildina öldruð kona sem hafði unnið í húsinu í 4 ár og átti góðar minningar úr því. Einhverjir hafa samt sem áður séð sig knúna til að að tæma úðabrúsana sína á veggi hússins.  Þetta er ein helsta perla borgarinnar.

Vorvindar glaðir..

Það er nú nánast logn svo fyrirsögnin á ekki við. Er búin að vera að vinna um helgina. Á laugardagsmorgun gekk ég til vinnu frá Hlemmi og var komin með naglakul eftir 10 mín labb. Á heimleið sá ég vetrargosa í blóma og páskaliljur sem blómstra fljótlega. Í dag var mun hlýrra, fór í Blómaval og keypti tete a tete, perluliljur og birkigreinar og gulblómstrandi greinar. Kannske ég fari út með málband á morgun og mæli hversu langt páskalilju- og túlípanalaukar hafa vaxið??? Og snæstjörnulaukarnir eru að skríða upp. En í Blómavali er mjög skemmtileg túlipanasýning sem ég hvet alla áhugasama til að kíkja á. Hálf íbúðin mín er rafmagnslaus, tilraunir með öryggisskifti skiluðu ekki árangri. Fyrsta verk í fyrramálið verður að reyna að ná í rafvirkja, hvenær fæ ég frið í þessari íbúð?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband