Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
13.7.2008 | 02:57
13. júlí 2008
.....Amma mín Unnur Sigurjónsdóttir fæddist á þessum degi fyrir 112 árum á Sandi í Aðaldal. Flutti þaðan að Einarsstöðum í Reykjadal og svo síðar að Litlu Laugum í sömu sveit. Giftist Tryggva afa mínum og byggðu þau nýbýlið Laugaból. Þar sem ég átti heima mín fyrstu ár. Amma eignaðist 11 börn og 39 barnabörn. Amma var mjög ljóðelsk. Hún var falleg í peysufötunum sínum. Hárið náði niður fyrir hésbætur og hún fléttaði það og vafði um höfuðið. Slíkt hár sést ekki lengur. Það var gott að vera hjá henni í sveitinni, hún hafði alltaf tíma fyrir okkur barnabörnin. Amma var blómakona. Og mjög barngóð. þegar ég hugsa um hana finn ég svo góða lykt. Hún var tæplega 97 ára gömul þegar hún dó á Sjúkrahúsinu á Húsavík. Hafði verið heilabiluð í mörg ár. Ég sinnti henni þar sem hjúkrunarfræðingur. Man t.d. eftir þegar hún sagði: Mikið óskaplega ert þú góð, hvað heitir þú? þegar ég svaraði sagði hún: " en skemmtilegt barnabarnið mitt heitir líka Hólmdís" Og stundum " þú kallar mig ömmu..mér þykir það skemmtilegt"
Foreldrar mínir hafa verið gift í 51 ár í dag og síðast en ekki síst á Ingveldur æskuvinkona mín í Grásíðu afmæli í dag...........til hamingju með það!!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.6.2008 | 00:18
Yfirvinnubann í Austurbænum
......ég hef verið í hálfgerðu verkfalli hér heima hjá mér undanfarið. Og hef komist að því að verkföll skapa mikinn vanda. Þannig er að þrátt fyrir góðan ásetning um að kenna ungviðinu góða umgengni hefur mér mistekist hrapallega. Og stundum finnst mér varla taka því að taka til....Dæmigerður dagur hjá mér er eins og dagurinn var í dag. Fór í vinnu í morgun og eftir það að versla. Kom heim um hálfsjö. Opnaði forstofudyrnar...við mér blöstu mörg skópör á víð og dreif um gólfið. Ég dröslaði varningum í gegn um þetta og setti pokana á eldhúsgólfið. Skaust svo fram og raðaði skónum.
Ástæðan fyrir því að pokarnir fóru á gólfið var sú að eldhúsbekkir og borð voru yfirfull af óhreinu leirtaui..brauðmylsnu og fleiru....það er nefnilega aldrei hægt að gera neitt í eldhúsinu nema taka til fyrst. Hitaði bakaraofninn....leit inn í stofu. Þar kúrði eldri heimasætan. Tómar gosflöskur, óhreint leirtau, popp á gólfi, bækur og blöð. Fullt af sælgætisbréfum. Urraði dálítið.....en mamma eg er svo þreytt var veiklulegt svarið sem ég fékk. Jæja kryddaði kjúklinginn sem keyptur var á 40% afslætti í bónus og fór svo að vaska upp......heilmikið. Fjarlægði sokkabuxur þeirrar 15 ára af eldhúsbekknum. Og fór þá inn á baðherbergi....henti þaðan dágóðu magni af baðmullarhnoðrum og eyrnapinnum..og fl. Hengdi upp handklæði.
Næst fór ég í eigin svítu.....fullt af fötum lágu þar.....sem ekki tilheyra mér. Holið var verst. Þar stendur rúm sem bíður þess að vera skrúfað í sundur. Á rúmið hefur öllu verið hent undanfarið. Þar er dágóður slatti af hreinum fötum sem dæturnar hafa ekki orkað að koma in til sín....urraði á þá yngri....sem svaraði; en mamma ég er svo þreytt. Ég þreif hreinlætistæki á baðherberginu en horfði bara á skítug gólfin. Bakið mitt getur ekki meira í bili.
Ég hef boðið umbun. Ég hef tuðað. Ég hef þagað. Ég hef öskrað. Stappað niður fótum. Hótað. Mikið djö....langar mig stundum til að flytja að heiman.........
Kannist þið við þetta?.......Ég vil alls ekki ganga fram af ykkur og því læt ég vera að segja ykkur frá myglaða brauðinu sem ég fann í rúmi dóttur minnar....né leirtauinu sem er á gólfinu hjá henni með hörðum matarleifum....né þeim tugum glasa sem hafa brotnað inni hjá henni þegar stigið er á þau. Þessu verkfalli mínu er lokið. Árangur enginn.
20.6.2008 | 00:50
Fyrir mömmu
m
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.6.2008 | 14:21
Alsæla
Þessi norðurferð mín hefur ekkert verið nema hrein snilld. Á laugardaginn fór ég í mikið garðpartý í tilefni gullbrúðkaups, veðrið dásamlegt, lifandi tónlist og allir glaðir. Um kvöldið var farið í Vélsmiðjuna að hitta 30 ára júbílanta......þar voru ALLIR með brosið út að eyrum. Morguninn eftir var svo lagt í hina miklu óvissuferð...fyrsta stopp var við hesthúsin fyrir ofan Akureyri. Þar sem menn báru hvern annan á hestbaki eða teymdu á asnaeyrunum. Eftir þetta óskapa erfiði var komið að fyrsta bjór dagsins enda farið að líða að hádegi. Síðan var ekið yfir Öxnadalsheiðina og Maggi fræddi okkur um Bólu-Hjálmar. Við Bólu var svo stoppað og samlokur snæddar....og drukkinn bjór. Í rútunni æfðum við stíft lagið hans Hafþórs ;Emma;(MA). Hilmar og Hafþór spiluðu á gítar og stórkórinn söng. Óvissan leiddi okkur í River Rafting í Vestari Jökulsá. Boðið var upp á að velja rólega útsýnissiglingu eða hasarferð. Ég valdi útsýnistúrinn...við vorum strax kölluð kjúklingar sem gerðum það og voru 2 bátar fylltir með kjúklingum. Reyndar fórum við kjúklingar sömu leið niður og aðrir, niður sömu flúðir. Við kjúklingarnir í mínum báti héldum forystu niður ána og fengum yfir okkur mest vatnið. Kom sér vel að vera í þurrbúningum Ljósmyndari frá National Geographic myndaði okkur stanslaust allann túrinn. Hann vinnur að heimildarmynd hér.
Við vorum 2 klukkustundir á ferð niður ána. Á miðri leið var farið í land og þar var boðið upp á rjómapönnukökur og heitt kakó með rommi. Vatnið í kakóið lá við fætur okkar í heitum læk.
Seinna var stoppað og boðið upp á að stökkva af háum kletti út í ána. Tölur um hæð klettsins eru nokkuð á reiki frá þremur metrum að þrjátíu og þremur
Næst var komið við í sundlauginni í Varmahlíð....liðið spúlað og snyrt, étinn hákarl og drukkinn snafs.
Næsti viðkomustaður var Löngumýri. Þar var snætt að ég held bjarndýrakjöt. Reyndar taldi ég mig sjá bjarndýr í nágrenninu en ekkert var gert með það. Álftagerðisbræður skemmtu okkur vel. (Óskar lét eins og fífl eins og oftast) Geirmundur lék svo fyrir dansi. Og það leiddist ENGUM.
Á heimleiðinni var sungið hástofum og dansað , já dansað. Svona snillingar eins og við getum allt.
16. júní var síðan stórhátíð í Höllinni. Við 30 ára stúdentar sungum Emmu af stakri snilld og seint gleymast þeim sem á hlýddu. Gamli Meistari Tryggvi Gíslason kom og kyssti okkur öll og lét alla árganga aðra sem þarna voru vita að við værum uppáhaldshópurinn hans. Það tók hann reyndar áratugi að komast að þessari niðurstöðu.
Ég læt engan sjá lærið á mér sem marðist við það að klifra yfir járnhlið við Lystigarðinn.
Mikið óskaplega eru þetta búnir að vera skemmtilegir dagar. Í gærkvöldi um miðnætti var ég svo komin í foreldrahús...hér er sól og 8 stiga hiti. Passlegur hiti fyrir hvítabirni.
Vinir og fjölskylda | Breytt 19.6.2008 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.6.2008 | 01:52
Afi.
.....Upp er runninn afmælisdagur afa míns Helga Dan. Hann fæddist árið 1900. Sveitadrengur í Öngulstaðahreppi. Bóndi á Björk. Mikill bókamaður og hans stærsta stolt var Guðbrandsbiblía. Aðaláhugamál var ættfræði og íslenskt mál. Hann giftist ömmu minni Gunnfríði og átti með henni Örn og Auði. Við áttum alltaf skap saman. Þegar talað er um skilyrðislausa ást hugsa ég alltaf um afa. Mér fannst hann bara það besta sem hægt er að hugsa sér. Mér fannst hann óborganlega fyndinn. Hans húmor varð minn húmor. Hann var rausnarlegur við okkur afkomendur, hlýr og fræðandi. Mér leið alltaf vel nálægt honum. Oft var ég hjá ömmu og afa í sveitinni. Og á menntaskólaárum mínum á Akureyri bjó ég hjá þeim. Mér fannst allt skemmtilegt og fyndið sem afi sagði. Og ég elskaði þegar hann hreinlega hristist af hlátri og húmor. Þegar ég kom heim til foreldra minna um helgar var ég uppfull af skemmtisögum um afa. Þegar bróðir minn bjó hjá honum seinna kom hann heim og spurði "var afi alltaf svona skrýtinn"?. Afa húmor var oft fólginn í því að segja sama brandarann oft og mér fannst þeir alltaf fara batnandi. Ég á teikningu eftir hann frá því í barnaskóla og stól sem hann sagðist hafa fengið fjögurra ára gamall.
Á Akureyri horfðum við afi á allt íslenskt efni saman. Afi var blindur. Og hann hraut ákaflega fyrir framan sjónvarpið. Að loknum íslenskum myndum og leikritum sagði hann alltaf: óskaplega er þetta nútímaefni lélegt. Og alltaf þótti mér það jafnóborganlegt. Svo enda ég með einni af uppáhaldsvísum afa sem hann fór með flesta daga.
Rösklega riðið í hlað
rétt um sólarlagsbil.
Það er nú einmitt það
og það er nú líkast til.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.6.2008 | 01:05
Falsaðar fréttamyndir
25.5.2008 | 12:53
60 ára.
17.5.2008 | 23:33
18 rauðar rósir
Skrýtinni vinnutörn lokið. Vann á endurhæfingadeild í gærkvöldi. Kom ekki sendill með rósavönd mikinn og taldi ég víst að þær væru til mín frá aðdáanda. Svo reyndist ekki vera í þetta skiptið. Þetta voru 27 rauðar rósir næstum meterslangar. Til starfsmanns. Ég tók við vendinum og var bókstaflega með fangið fullt. Rósirnar voru frá fyrrverandi eiginmanni í tilefni 27 ára brúðkaupsafmælis!! Við vorum þarna nokkrar fyrrverandi eiginkonur....sem eigum ekki von á svona glaðningi á okkar brúðkaupsdögum......
í morgun vann ég svo á öldrunardeild fram yfir hádegi......þá skrapp ég í Hafnarhúsið og skoðaði sýningu....fannst einna merkilegast að skoða ljósaherbergi Carlos Cruz-Diez. Eftir það kvöldvakt á barnadeild. Ótrúlega fjölbreyttur sólarhringur en gott að eiga frí á morgun.
Og yngri unglingurinn á heimilinu sefur vært í stofusófa og það þykir mér gott
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
7.5.2008 | 11:33
Prik númer þrjú
fær
Mamma
18.4.2008 | 02:48
Húsið mitt.
.....Það eru að verða sex ár síðan ég flutti á jarðhæðina hér á Rauðalæknum. Valdi hana vegna þess að hér voru stór herbergi fyrir dæturnar og stór garður. Gerði ekkert nema að mála og flytja inn. Ef eitthvað heyrðist í fólki við þessa vinnu var kústurinn á efri hæðinni óspart notaður til að berja í gólfið...Hér var aldrei notaður bor eða hamar eftir 10 á kvöldin.
......svo var flutt inn. Forstofan er sameign þó ég sé ein um að nota hana sem inngang....nema þegar íbúar efri hæðar eru drullugir..þá er gengið hér um. Ég setti lausan fataskáp og 2 myndir á vegg í þetta rými og var minnt á það ca. 100 sinnum að þetta væri sameign. Ég vildi mála þessa sameign en það þótti ekki tímabært þrátt fyrir ónýta málningu. Þó bauðst karlinn til að mála með mér tveimur dögum fyrir fermingu.....þá var ég ekki til. En þetta hafðist tveimur árum síðar. Gólfefni er ónýtt, reikna með að geta hugsanlega skipt eftir 10 ár. Vil fá að gera það bara sjálf. Eins hafði ég boðist til að mála sameignina sjálf og á eigin kostnað en fékk blátt bann. Átti afgangsmálningu og skellti henni á skítugt þvottahúsið og fékk skammir fyrir. Tek fram að ég málaði hvítt yfir hvítt.
...Jæja hjónin tilkynntu að ég mætti þvo þvott í eigin vél 3 daga í viku , miðvikudagur væri frjáls. Aðra daga mætti ég ekki koma í þvottahúsið. Þau sögðust hafa kallað á lögreglu vegna fyrri íbúa vegna deilna um þvottahús.
Eitt sinn setti ég í vél á öðrum degi en þeim hentaði og voru þau komin umsvifalaust niður og sögðu að það færi gufa í þvottinn þeirra frá vélinni minni. Þvotturinn þeirra var vinnugalli bóndans, hann er bifvélavirki. Engin gufa kemur frá vélinni og hún er mjög hljóðlát....annað en hávaðavélin þeirra.
Í sumar lánaði ég frænku minni íbúðina í viku og fékk hún yfirlestur um umgengni og ljósanotkun.
Í kvöld setti dóttir mín í vél á ólöglegum degi og komu þau hjón bæði snarlega niður með ljótan munnsöfnuð.
Loksins þegar sameign var máluð spurði ég konuna hvort þetta væri nú ekki munur. Hún hreytti út úr sér að þetta væri óþarfi.
Ég þurfti að skipta um gólfefni hér og var sett ódýrasta plastefni hér...hún var yfir sig hneyksluð hitt hefði nú ekki verið svo gamalt.
Í haust skipti ég um eldhús og fór frúin þá hamförum. Ég setti upp lítinn skáp í sameiginlegu þvottahúsi....sambærilegur að stærð og það sem þau eru með naglfast. Og var búinn að nefna það við bóndann. En þau voru erlendis þegar þetta var gert. Þeirra fyrsta verk við heimkomuna var að koma hér bæði í ham. Þú ert bara farinn að innrétta þvottahúsið. Þú tekur þetta niður strax. Ég neitaði og sagði ef þetta fer niður fer líka niður það sem þið hafið skrúfað upp.....og ekkert hefur gerst ennþá.
Í tvígang hafa mín gólf verið brotin upp vegna rottugangs með öllum þeim óþægindum sem því fylgja........og ég fékk sko að vita að þetta væri bara fyrir mig. Sit uppi með ónýtt nýtt gólfefni.
Garðurinn.....ég sé að mestu um hann og hef eytt hundruðum þúsunda í hann. Frúin stígur aldrei inn í hann. En karlinn sagaði niður allar sírenur um daginn og eyðilagði að mínu mati. En tekur alls ekki það sem mér finnst að þurfi að fara.
En mér er sagt af öðrum íbúum hússins að þau hafi látið svona við alla íbúa frá upphafi. Þau hafa eitt upp á okkur að klaga og er það reykingalykt úr forstofuherbergi dóttur minnar og er ég jafnpirruð og þau og hef bent þeim á að segja bara eitthvað við hana sjálf.
Sem betur fer eru aðrir íbúar hússins hinir elskulegustu og hrósa garðinum og sameigninni sem ég sé ein um að halda hreinni.
Þetta var smáútrás mér líður betur og enginn er neyddur til að lesa þetta.
Á morgun fer ég í Bónus vopnuð rauðum límmiðum og geri innkaup fyrir vikuna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)